Greiðsluskylda Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta („TIF“) verður virk þegar aðildarfyrirtæki er að áliti Fjármálaeftirlitsins ekki fært um að inna af hendi greiðslu á andvirði verðbréfa eða reiðufjár sem viðskiptavinur hefur krafið aðildarfyrirtæki um endurgreiðslu eða skil á í samræmi við þá skilmála sem gilda, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999. Greiðsluskylda TIF getur einnig orðið virk ef bú aðildarfyrirtækis er tekið til gjaldþrotaskipta (slitameðferðar). Þann 9. apríl 2010 kvað Héraðsdómur Reykjavíkur upp úrskurð um að VBS fjárfestingarbanki hf. („VBS“) skyldi tekið til slitameðferðar og skipaði félaginu slitastjórn. Telst greiðsluskylda TIF gagnvart kröfuhöfum VBS því hafa orðið virk þann dag.

 Hvíli greiðsluskylda á TIF gagnvart kröfuhöfum aðildarfyrirtækis, ber TIF að inna af hendi greiðslu eigi síðar en þremur mánuðum eftir að lögmæti og fjárhæð kröfu er staðfest, sbr. 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 120/2000, sem sett var með heimild í lögum nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Hins vegar ríkti mikil óvissa um greiðsluskyldu TIF gagnvart kröfuhöfum VBS þar sem ekki lá fyrir hvort og að hvaða leyti VBS væri fær um að afhenda kröfuhöfum verðbréf í þeirra eigu og því var ekki unnt að staðfesta lögmæti og fjárhæðir krafna í samræmi við ofangreint.

Í maí 2012 tók stjórn TIF ákvörðun um að hefja útgreiðslur úr verðbréfadeild á bótum til viðskiptavina VBS í samræmi við lög nr. 98/1999. Af því tilefni sendi TIF bréf til kröfuhafa VBS sem TIF taldi eiga rétt til bóta úr verðbréfadeild sjóðsins, þar sem þeim voru boðnar bætur gegn því að þeir framseldu TIF kröfur sínar á hendur VBS vegna þeirra verðbréfa sem TIF kæmi til með að bæta, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999. Bauð TIF þannig 137 kröfuhöfum VBS bætur, samtals að fjárhæð kr. 183.341.441. Nú hafa 45 aðilar þekkst boð TIF um greiðslu bóta og hefur TIF greitt til þeirra bætur að fjárhæð kr. 182.629.448. Sjóðnum hafa hins vegar ekki borist viðbrögð frá 92 aðilum sem TIF hefur boðið bætur samtals að fjárhæð kr. 711.953.

Í ljósi þess að TIF hefur nú lokið greiðslu á um 99,5% þekktra krafna á hendur verðbréfadeild sjóðsins vegna VBS, mun TIF leitast við að ljúka uppgjöri krafna TIF á hendur VBS vegna bóta sem TIF hefur greitt til kröfuhafa VBS. Krafa TIF nýtur forgangs við slitameðferð VBS samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999.